Fjalla-Eyvindur – afreksmaður öræfanna

Hveravellir Fjalla-Eyvindur var á flótta og launferðalagi í byggð og á öræfum í næstum 40 ár frá 1745 til 1785. Undantekning var árið 1760 er Eyvindur var skráður opinber gjaldþegn á Hrafnfjarðareyri. Á þessum tíma voru þau Halla og hann handsömuð á Dröngum á Strandasýslu í apríl 1763 og við Innra hreysi 7. ágúst 1772 hjá Kvíslaveitum á Sprengisandi. En Halla var einnig handsömuð á Hveravöllum nokkru fyrr. Þau náðu alltaf að sleppa áður en þau fengju dóm á sig. Marga dvalarstaði áttu þau í óbyggðum sem hann hafði byggt upp, ennfremur eyðibýli og hraunbyrgi. Staðir þessir voru um hálendið endilangt, frá Strandasýslu allt til Austfjarða.

Glímuhæfni hans við náttúruöflin hefur verið frábær, ratvísi og hyggindi, hæfileikar og kænska, öflun og geymsla matvæla voru hans eiginleikar umfram flesta aðra. Handlagni hans var mikil. Úr grávíðitágum gat hann gert körfur, smáar og stórar og sumar jafnvel vatnsheldar til geymslu matvæla. Nokkur dæmi eru um litlar körfur sem hann gaf velgjörðarfólki þeirra Höllu. Þessar körfur eru safngripir í dag og þykja miklar gersemar.

Eyvindur naut mikillar virðingar og jafnvel vinsælda. Margir lögðu honum leynilega mikið lið og veittu ómetanlega aðstoð, jafnt íbúar afskekktra býla sem sýslumenn og ritari landsstjórnar. Í upphafi var hann grunaður um þjófnað, en ástæðan fyrir útlegð hans kann einnig að hafa verið sú að hann laumaðist á brott frá barnsmóður sinni.

Mjög ströng refsing lá við sauðaþjófnaði á þessum öldum og reynt að beita fyllstu refsingu gegn slíkum glæpum, ítrekað brot gat jafnvel varðað dauðasök. Oft gerðist það að gripdeildarmenn lögðust út ef upp komst um þjófnaðinn. Þá var þjófnaðurinn forsendan en útlegðin afleiðingin. Í tilfelli Eyvindar var útlegðin forsendan en þjófnaðurinn afleiðingin, glæpur sem var aðeins framinn til þess að komast af.

Það hlýtur að vekja aðdáun enn í dag, sérstaklega allra ferðamanna, hvernig hann gat haldið lífi í sér og ástkonu sinni uppi á öræfum á þeim árum þegar harðindi og hörmungar geisuðu um byggðir landsins og mörg hundruð manna fóru á vergang í byggð og dóu úr hungri.

Fróðlegt væri fyrir þróttmikla ferðamenn nútímans að setja sig í spor Eyvindar og keppa við hann á jafnréttisgrundvelli hvað snertir klæðnað og allan útbúnað til dvalar á fjöllum.

Hjörtur Þórarinsson Hveravellir

Samstarfsaðilar

B&S Restaurant Milli fjalls og fjöru PDF Milli fjalls og fjöru 2 PDF Saf Tour